Fundarboð

Stjórn Prestafélags Íslands boðar hér með til aðalfundar 2023 – í Grensáskirkju í Reykjavík miðvikudaginn 26. apríl 2023 – kl. 10 árdegis. Búast má við að fundinum ljúki um kl. 16:00.

Dagskrá fundarins er sem hér segir:

Skýrsla stjórnar

Ársreikningar og fjárhagsáætlun

Skýrslur Vísindasjóðs PÍ, Sátta – og siðanefndar PÍ, Námsleyfafulltrúa og ritstjóra Kirkjuritsins.

Lagabreytingar

Laganefnd leggur til nokkrar breytingar á lögum félagsins sem hægt er að sjá hér fyrir neðan. Er félagsfólk hvatt til að kynna sér þessar breytingatillögur fyrir aðalfund.

Kosningar

Önnur mál.

Fyrir hönd stjórnar.

Þorgrímur Daníelsson

ATH – MEÐFYLGJANDI HÉR FYRIR NEÐAN ER SKÝRSLA STJÓRNAR OG TILLAGA AÐ LAGABREYTINGUM

Skýrsla stjórnar Prestafélags Íslands 

fyrir starfsárið 2022-2023

Stjórn Prestafélags Íslands skipuðu í upphafi starfsárs 2022–2023 Arnaldur Bárðarson formaður, Eva Björk Valdimarsdóttir varaformaður, Jón Ómar Gunnarsson kjaramálafulltrúi, Guðmundur Karl Brynjarsson gjaldkeri og Anna Eiríksdóttir ritari.  Varastjórn skipuðu Jóhanna Gísladóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson. 

Á fyrri hluta starfsársins hófust viðræður við starfskjaranefnd sem kjarafulltrúi og fyrrum formaður önnuðust. Stjórn hefur einnig annast hagsmunagæslu fyrir félagsmenn.

Arnaldur Bárðarsson lét af störfum sem formaður um miðjan október. Nýr formaður, Þorgrímur Daníelsson, var kjörinn á aukaaðalfundi 21. nóvember. Guðmundur Karl Brynjarsson tók sér hvíld frá stjórnarstörfum stuttu síðar. Í hans stað kom inn í stjórn Jóhanna Gísladóttir. Stjórn fundar að jafnaði einu sinni í mánuði, en oftar ef þurfa þykir. 

Á síðari hluta starfsársins hafa störf stjórnar aðalega falist í ýmiskonar hagsmunagæslu fyrir félagsmenn, svo og fundahöldum um komandi kjaraviðræður. Formaður og kjarafulltrúi hafa haldið alls ellefu fundi með hinum ýmsu félagsdeildum og prófastsdæmum, til að ræða komandi kjarasamninga og annað það sem félagsfólki lá á hjarta. Upp úr því sem fram kom á þessum fundum hafa formaður og kjaramannafulltrúi unnið vinnuskjal í átján liðum, þar sem hver liður fjallar um ýmis álitamál sem liggja félagsmönnm á hjarta. 

Fulltrúaráðsfundur 2023

22. mars var haldinn fulltrúaráðsfundur þar sem nokkru fleiri voru boðaðir til fundar en venjulega. En auk stjórnar PÍ og formanna félagsdeilda mættu þar aukafulltrúar frá fjölmennustu prófastsdæmum og landshlutadeildum. Ekkert er í lögum félagsins um að heimilt sé að halda fulltrúaráðsfund með þessum hætti. Hér verður því hins vegar haldið fram að ekkert í lögum félagsins banni slíkt — og fjölmennari fulltrúaráðsfundur geti verið gagnlegur þegar undirbúa þarf mikilvæg mál vandlega. 

Á fundinum komu fram verulegar áhyggjur vegna kjararýrnunar presta á undanförnum árum og var fólk sammála um að krefjast verði leiðréttingar afturvirkt á þeirri rýrnun. Samhljómur var um að PÍ standi vörð um gjaldskrá sína vegna aukaverka en jafnramt kom fram vilji til að skoða nýjar hugmyndir, svo fremi þær leiði ekki til kjararýrnunar presta. Ástæða er til að þakka góðar og gagnlegar umræður, ályktanir og brýningar á fulltrúaráðsfundinum sem örugglega munu nýtast  samninganefnd PÍ í komandi kjaraviðræðum. 

Menntadagur 2023

Menntadagur Prestafélags Íslands verður að þessu sinni haldinn í Grensáskirkju í Reykjavík þriðjudaginn 25. apríl. Yfirsrkift verður „Framtíð Kirkjunnar“. Þar er ætlunin að fá nokkra kirkjuþingsfulltrúa, svo og aðra til að ræða við okkur þetta mikilvæga málefni.  Að dagskrá menntadags lokinni, kl.17.30, hefst móttaka í nýju húsnæði Kirkjuhússins í Bústaðakirkju þar sem boðið er upp á léttar veitingar.  Til móttökunnar eru sérstaklega boðin fyrrum þjónandi prestar og prestsmakar.

Félagsmenn eru hvattir til þess að taka daginn frá!

Aðalfundur PÍ 2022

Aðalfundur Prestafélags Íslands 2023 fer fram í Grensáskirkju í Reykjavík miðvikudaginn 25. apríl og hefst kl. 10.  Fundinn verður eins og í fyrra einnig hægt að sitja með rafrænum hætti og verður hlekkur á fundinn sendur til félagsmanna stuttu fyrir fund.  Félagsmenn eru hvattir til þess að taka daginn frá og taka þátt í störfum aðalfundar.

Kjör stjórnarmanna

Á aðalfundi 2023 lýkur kjörtímabili tveggja stjórnarmanna. Þau eru Eva Björk Valdimarsdóttir  varaformaður og Guðmundur Karl Brynjarsson, en hann var kjörinn á síðasta aðalfundi til eins árs í stað Arnaldar Bárðarssonar sem þá tók við formennsku í félaginu. Guðmundur Karl sækist ekki eftir endurkjöri en  Eva Björk hyggst gefa aftur kost á sér. Jóhanna Gísladóttir sem kjörin var sem varamaður á síðasta aðalfundi hyggst ekki gefa kost á sér áfram. 

Starfið framundan

Ef að líkum lætur verður gerð nýs kjarasamnings miklvægasta verkefni félagsins á komandi mánuðum. Þar ber launaliðinn hæst, enda hafa laun presta dregist verulega aftur úr almennri launaþróun og mikivægt að snúa þeirri þróun við. Þar kann þó að vera veruleg fyrirstaða frá viðsemjanda okkar og mikilvægt að prestar standi þétt saman. 

Til hliðar við launalið næsta kjarasamnings eru ýmsar spurningar sem komið hafa fram á fundum með félagsmönnum undanfarið: Þar mætti nefna t.d. spurningar um vinnutíma, afleysingar, og greiðslur fyrir afleysingar, starfsálag, skilgreiningu á vinnutíma, skilgreiningu og greiðslur fyrir vaktsíma, rétt til frídaga og öryggissjónarmið svo eitthvað sé nefnt. Mörg þessara atriða þarf að skoða og semja um í kjarasamningum. Ljóst má vera að samningar um öll þessi atriði kalla á vandlega athugun, íhugun og skoðun. Því kann að vera skynsamlegt í næsta kjarasamningi að semja eingöngu um launaliðinn en gera jafnframt viðræðuáætlun um önnur atriði. 

Stjórn Prestafélags Íslands þakkar félagsmönnum fyrir liðið starfsár.  Við vonumst til þess að sem flest sjái sér fært að sitja aðalfund.  Síðustu ár höfum við allt of lítið getað notið samveru hvert með öðru, en bæði aðalfundur og menntadagur er kjörið tækifæri til þess.  Hittumst heil!

Með kveðju.

Fyrir hönd stjórnar Prestafélags Íslands.

Eva Björk Valdimarsdóttir.

Þorgrímur Daníelsson.

Tillaga að breytingum á 2.,11., og 13. grein laga Prestafélags Íslands

2. gr.

Félagar geta orðið íslenskir prestar og guðfræðingar sem starfa á grundvelli játninga þjóðkirkjunnar og skuldbinda sig siðareglum félagsins (Codex Ethicus) og greiða tilskilin félagsgjöld, sbr. 11. grein.
Fagaðilar geta jafnframt orðið þeir prestar og guðfræðingar sem starfa á samkirkjulegum játningargrundvelli kristinnar kirkju, það er á  grundvelli Postullegu trúarjátningarinnar, Níkeujátningarinnar og Aþanasíusarjátningarinnar. Pastores emeriti hafa fagaðild.
Þeir, sem ekki tilheyra Lúthersk-Evangelískri kirkju hafa þó ekki atkvæðisrétt eða rétt til setu í stjórn P.Í.
Stjórnin sker úr um ágreiningsatriði varðandi félagsaðild. Lögheimili og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. lagabreytningatillaga

Aðild að PÍ geta fengið prestar og guðfræðingar sem starfa á grundvelli játninga þjóðkirkjunnar. Félagsfólk PÍ skal fara að lögum félagsins, reglum og siðareglum svo og ákvörðunum aðalfunda.

Aðild að PÍ getur verið með eftirfarandi hætti:

2.1. Fag- og stéttarfélagsaðild þeirra starfandi presta sem greiða stéttarfélagsgjöld til PÍ. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í fag- og stéttarfélagsmálum.

2.2. Fagfélagsaðild þeirra starfandi presta sem greiða fagfélagsgjald til PÍ og starfa á samkirkjulegum játningargrundvelli kristinnar kirkju. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í öllum málum félagsins öðrum en stéttarfélagsmálum. 

2.3. Fræða- og aukaaðild þeirra sem: a) kenna guðfræði við háskóla, b) presta sem starfa tímabundið í öðru landi en Íslandi og c) guðfræðinema með BA-próf í guðfræði og stunda framhaldsnámi í guðfræði til starfsréttinda til prestsþjónustu eða hafa lokið framhaldsnámi en hafa ekki hlotið prestsvígslu. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í starfi félagsins, öðru en aðalfundi.

2.4. Pastores emeriti, Lífeyrisaðild presta og guðfræðinga sem hafa lokið störfum. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í starfi félagsins öðru en aðalfundi. 

Stjórnin PÍ sker úr um ágreiningsatriði sem kunna að koma upp er snerta félagsaðild. Lögheimili og varnarþing er í Reykjavík.

11. gr. 

Félagsmenn í starfi greiða félagsgjald samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar. Það má nema allt að 1,5% af byrjunarlaunum sóknarpresta. Fagaðilar greiða félagsgjald eftir nánari ákvörðun stjórnar. Pastores emeriti eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds. Sbr. þó 1.mgr. 2.gr. Áskrift að Kirkjuritinu skal vera innifalin í félagsgjaldi. Stjórn félagsins er heimilt að innheimta félagsgjöld hjá launagreiðanda.

11. gr. lagabreytingatillaga

Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi félagsins. Félagsgjald er mismunandi eftir félagsaðild. Stjórn PÍ er heimilt að innheimta félagsgjöld hjá launagreiðanda. Áskrift að Kirkjuritinu skal vera innifalin í félagsgjaldi.

11.1 Félagsfólk með fag- og stéttarfélagsaðild greiðir stéttarfélagsgjald sem nema má allt að 1,5% af byrjunarlaunum sóknarpresta. 

11.2 Félagsfólk sem hefur fag-, fræða- eða aukaaðild (sbr. greinar 2.2 og 2.3) greiðir félagsgjald í samræmi við ákvörðun stjórnar.

11.3 Pastores emeriti eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds.

13. gr. 

Aðalfundur félagsins skal haldinn ár hvert, að jafnaði í tengslum við Synodus. Dagskrá fundarins skal auglýsa bréflega með hálfs mánaðar fyrirvara. Með fundarboði skal senda útdrátt úr skýrslu stjórnar og tillögur um lagabreytingar ef fram á að leggja. Taka má mál fyrir utan dagskrár ef fundurinn leyfir. Formaður tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Fundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður. Formaður félagsins skal flytja skýrslu á aðalfundi um störf félagsins á liðnu starfsári. Gjaldkeri skýrir frá fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og fjárhagsáætlun yfirstandandi starfsárs, sem borin skal undir atkvæði á fundinum. Þá skulu nefndir og einstaklingar, sem falin eru störf í þágu félagsins, skila skýrslu um störf og fjárhag. Á aðalfundi ræður afl atkvæða öllum málum, nema þeim er snerta breytingar á lögum félagsins. Til lagabreytinga þarf tvo þriðju atkvæða þeirra sem á fundi eru. Atkvæðisréttur á aðalfundi er bundinn félagsaðild sbr. 1.mgr.2.gr.  Atkvæðisréttur um kjarasamninga og starfskjör er bundinn fullri félagsaðild. Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar sé þess þörf. Um aukaaðalfund gildi sömu ákvæði um boðun, fundarsköp og atkvæðavægi og atkvæðarétt. Félagsfundi skal halda þegar stjórnin ákveður eða minnst 20 félagsmanna krefjast þess. Formaður boðar félagsfundi.

13. gr. lagabreytingatillaga

Aðalfundur Prestafélags Íslands skal haldinn ár hvert, að jafnaði í tengslum við Synodus. Dagskrá fundarins skal auglýsa bréflega með hálfs mánaðar fyrirvara. Með fundarboði skal senda útdrátt úr skýrslu stjórnar og tillögur um lagabreytingar ef fram á að leggja. Taka má mál fyrir utan dagskrár ef fundurinn leyfir. Formaður tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Fundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður. Formaður félagsins skal flytja skýrslu á aðalfundi um störf félagsins á liðnu starfsári. Gjaldkeri skýrir frá fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og fjárhagsáætlun yfirstandandi starfsárs, sem borin skal undir atkvæði á fundinum. Þá skulu nefndir og einstaklingar, sem falin eru störf í þágu félagsins, skila skýrslu um störf og fjárhag. Á aðalfundi ræður afl atkvæða öllum málum, nema þeim er snerta breytingar á lögum félagsins. Til lagabreytinga þarf tvo þriðju atkvæða þeirra sem á fundi eru. Atkvæðisréttur á aðalfundi er mismunandi eftir félagsaðild sbr. 2. gr. Aðeins félagsfólk sem greiða félagsgjöld situr aðalfund. 

13.1 Atkvæðisréttur um kjarasamninga og starfskjör er bundinn fag- og stéttarfélagsaðild sbr. 2.1.gr

13.2 Atkvæðisrétt varðandi önnur mál hefur félagsfólk sem hafa fag-, fræða- og aukaaðild sbr. greinar 2.2 og 2.3. 

Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar sé þess þörf. Um aukaaðalfund gildi sömu ákvæði um boðun, fundarsköp og atkvæðavægi og atkvæðarétt. Félagsfundi skal halda þegar stjórnin ákveður eða minnst 20 félagsmanna krefjast þess. Formaður boðar félagsfundi.