Lög og siðareglur Prestafélags Íslands

Lög samþykkt á aðalfundi 2011

1. gr. Félagið heitir Prestafélag Íslands. Skammstafað P.Í.

2. gr. Félagar geta orðið íslenskir prestar og guðfræðingar sem starfa á grundvelli játninga þjóðkirkjunnar og skuldbinda sig siðareglum félagsins (Codex Ethicus) og greiða tilskilin félagsgjöld, sbr. 11. grein.
Fagaðilar geta jafnframt orðið þeir prestar og guðfræðingar sem starfa á samkirkjulegum játningargrundvelli kristinnar kirkju, það er á  grundvelli Postullegu trúarjátningarinnar, Níkeujátningarinnar og Aþanasíusarjátningarinnar. Pastores emeriti hafa fagaðild.
Þeir, sem ekki tilheyra Lúthersk-Evangelískri kirkju hafa þó ekki atkvæðisrétt eða rétt til setu í stjórn P.Í.
Stjórnin sker úr um ágreiningsatriði varðandi félagsaðild. Lögheimili og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr. Tilgangur félagsins er að vera málsvari íslenskra presta og guðfræðinga og gæta hagsmuna þeirra í öllu því er varðar störf þeirra og embætti, réttindi og skyldur. Félagið er í senn stéttarfélag og fagfélag presta og guðfræðinga. Félagið skal standa vörð um heill og sóma félagsmanna, stuðla að endurmenntun þeirra og efla með þeim stéttvísi og samstarf.

4. gr. Stjórn félagsins skal kosin til tveggja ára í senn og skipa hana fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og kjaramálafulltrúi. Formaður skal kosinn fyrst bundinni kosningu. Hljóti enginn meirihluta atkvæða í fyrstu umferð skal kosið strax milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Enginn skal sitja lengur í stjórn en þrjú kjörtímabil samfellt. Sé sitjandi stjórnarmaður kjörinn til formennsku hefst umboð hans með því kjöri til setu næstu tvö ár. Endurkjör er heimilt, en enginn skal gegna formennsku samfellt lengur en þrjú kjörtímabil. Þrír stjórnarmanna skulu vera úr hópi þeirra sem félagið semur fyrir um kaup og kjör. Stjórnin skal og bundin því að kjósa kjaramálafulltrúann úr þeim hópi. Stjórnarkosning fer fram á aðalfundi félagsins og ganga tveir úr stjórn annað árið en þrír hitt. Sé formaður kjörinn úr hópi sitjandi stjórnar skal þó nýr stjórnarmaður kjörinn í hans stað til loka kjörtímabils nýkjörins formanns. Tveir varamenn skulu kosnir í stjórn hverju sinni til eins árs. Fyrsti varamaður skal ávallt vera úr hópi þeirra sem félagið semur fyrir. Stjórn félagsins er jafnframt samninganefnd þess og fer með gerð kjarasamninga fyrir þess hönd. Formaður og kjaramálafulltrúi undirrita kjarasamninga með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Stjórn félagsins skal kynna félagsmönnum kjarasamning og bera hann undir atkvæði á félagsfundi. Rafræn atkvæðagreiðsla skal vera jafngild atkvæðagreiðslu á félagsfundi. Stjórninni er heimilt að ráða sér starfsmann.

5. gr. Stjórnin skal hafa vakandi auga með öllum þeim málum er varða hag presta og guðfræðinga, svo og hag þjóðkirkjunnar. Hún skal í hvívetna standa vörð um réttindi presta og guðfræðinga. Stjórnin skal láta sig varða fagleg málefni svo sem endurmenntunarmál og gerð og dreifingu hjálpargagna fyrir presta og guðfræðinga. Stjórnin skal stuðla að guðfræðilegri umræðu meðal félagsmanna. Skylt er að boða til stjórnarfundar ef þrír stjórnarmenn óska þess.

6. gr. Fulltrúaráð skal starfa í félaginu og vera samráðsvettvangur. Fulltrúaráðið er skipað stjórn félagsins, einum fulltrúa frá hverri félagsdeild. Formaður félagsins er formaður fulltrúaráðsins og skal hann kalla það saman þegar stjórn P.Í. eða meirihluti fulltrúaráðsmanna óskar þess. Stjórninni er skylt að leggja fyrir fulltrúaráðið öll stefnumarkandi mál er varða kjör og réttindi presta. Skylt er að kalla fulltrúaráðið saman einu sinni á ári. Skal boðað til funda þess með hálfs mánaðar fyrirvara. Félagsdeildir P.Í. eru: Prestafélag Austurlands, Prestafélag Suðurlands, Prestafélag Suðvesturlands, Hallgrímsdeild, Prestafélag Vestfjarða, Prestafélag Hólastiftis hins forna, Prófastafélagið, Félag prestvígðra kvenna og Félag fyrrum þjónandi presta og maka. Heimilt er með samþykki aðalfundar að fjölga deildum með fulltrúaréttindum eða aukaaðild.

7. gr. Félagið er aðili að Bandalagi Háskólamanna (BHM) og ber skyldur og réttindi samkvæmt lögum þess. Félagið getur enn fremur gerst aðili að öðrum félögum og/eða hagsmunasamtökum.

8. gr. Félagið hefur samstarf við prestafélög í nálægum löndum, m.a. með aðild að sambandi norrænu prestafélaganna og með þátttöku í mótum þess og fundum.

9. gr.  Félagið gefur út tímarit, Kirkjuritið. Ritnefnd skal skipuð fjórum mönnum er stjórn P.Í. kýs til tveggja ára í senn. Stjórn félagsins ræður ritstjóra og er hann formaður ritnefndarinnar. Ritnefnd og ritstjóri starfa í samráði við stjórn félagsins. Stjórn P.Í. ber fjárhagslega ábyrgð á ritinu. Ritnefnd skal færa fundargjörðabók. Aðra útgáfustarfsemi á vegum félagsins skal stjórnin annast.

10. gr. Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn og einn til vara. Skulu þeir hafa farið yfir alla reikninga félagsins fyrir lok febrúar. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

11. gr. Félagsmenn í starfi greiða félagsgjald samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar. Það má nema allt að 1,5% af byrjunarlaunum sóknarpresta. Fagaðilar greiða félagsgjald eftir nánari ákvörðun stjórnar. Pastores emeriti eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds. Sbr. þó 1.mgr. 2.gr. Áskrift að Kirkjuritinu skal vera innifalin í félagsgjaldi. Stjórn félagsins er heimilt að innheimta félagsgjöld hjá launagreiðanda.

12. gr. Stjórnarmenn og aðrir fulltrúar félagsins skulu fá ferðakostnað greiddan samkvæmt þeim gjaldskrám og reglum sem í gildi eru. Um annan kostnað úrskurðar stjórn félagsins hverju sinni.

13. gr. Aðalfundur félagsins skal haldinn ár hvert, að jafnaði í tengslum við Synodus. Dagskrá fundarins skal auglýsa bréflega með hálfs mánaðar fyrirvara. Með fundarboði skal senda útdrátt úr skýrslu stjórnar og tillögur um lagabreytingar ef fram á að leggja. Taka má mál fyrir utan dagskrár ef fundurinn leyfir. Formaður tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Fundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður. Formaður félagsins skal flytja skýrslu á aðalfundi um störf félagsins á liðnu starfsári. Gjaldkeri skýrir frá fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og fjárhagsáætlun yfirstandandi starfsárs, sem borin skal undir atkvæði á fundinum. Þá skulu nefndir og einstaklingar, sem falin eru störf í þágu félagsins, skila skýrslu um störf og fjárhag. Á aðalfundi ræður afl atkvæða öllum málum, nema þeim er snerta breytingar á lögum félagsins. Til lagabreytinga þarf tvo þriðju atkvæða þeirra sem á fundi eru. Atkvæðisréttur á aðalfundi er bundinn félagsaðild sbr. 1.mgr.2.gr.  Atkvæðisréttur um kjarasamninga og starfskjör er bundinn fullri félagsaðild. Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar sé þess þörf. Um aukaaðalfund gildi sömu ákvæði um boðun, fundarsköp og atkvæðavægi og atkvæðarétt. Félagsfundi skal halda þegar stjórnin ákveður eða minnst 20 félagsmanna krefjast þess. Formaður boðar félagsfundi.

14. gr. Félagið setur siðareglur (Codex Ethicus). Stjórn P.Í. er heimilt að vísa félagsmönnum um stundarsakir úr félaginu gerist þeir brotlegir. Stjórn P.Í. skal kanna gaumgæfilega alla málavexti og reynir að koma á sáttum studd niðurstöðu siðanefndar.

Siðareglur, codex ethicus fyrir Prestafélag Íslands um samskipti félagsmanna innbyrðis.

  1. Siðareglur þessar eru settar til að efla gagnkvæma virðingu og samkennd meðal félagsmanna.
  2. Minnug þess að prestur er þjónn og hirðir safnaðar en ekki starfsmaður hans skal gætt Gullnu reglunnar: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ (Matt. 7:12) í samskiptum við allt fólk.
  3. Prestar skulu virða starfsvettvangs hver annars og stuðla að góðu samstarfi og samkennd fremur en samkeppni innan stéttarinnar. Prestar skulu sýna hver öðrum heilindi og virðingu í viðtali sem umtali, ráðum og gjörðum.
  4. Prestar skulu reiðubúnir að aðstoða hver annan þegar þörf krefur og gæta þess að fara ekki óumbeðnir inn á starfsvettvang annarra.
  5. Prestar vinna embættisverk fyrir starfssystkin sín, ekkjur þeirra og ekkla án þess að krefja þau um greiðslu.
  6. Þegar prestur sækir um embætti eða starf sýnir hann öðrum umsækjendum fyllstu tillitssemi. Þegar prestur lætur af embætti skal hann ekki hlutast til um hver umsækjenda er valinn í hans stað.
  7. Prestur skal gæta þess að vera málefnanlegur í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.
  8. Prestur er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Presti ber að fylgja samvisku sinni og sannfæringu.

Reykjavík 3. september 2012